Enski boltinn

Fyrir­liðinn Van Dijk ekki viss hvað fram­tíðin ber í skauti sér

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki viss hvað gerist næsta sumar.
Ekki viss hvað gerist næsta sumar. Simon Stacpoole/Getty Images

Virgil van Dijk, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segist ekki viss um hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort hann verði áfram hjá félaginu eftir að Jürgen Klopp hættir sem þjálfari liðsins.

Stutt er síðan Klopp tilkynnti að hann myndi hætta sem þjálfari Liverpool að tímabilinu loknu. Til að bæta gráu ofan á svart hefur hinn 32 ára gamli Van Dijk nú sagt að hann sé ekki viss hvað hann geri í framtíðinni.

Liverpool festi kaup á hollenska miðverðinum í janúar 2018 fyrir 75 milljónir punda. Núverandi samningur hans rennur út sumarið 2025 svo ætli Liverpool sér að fá eitthvað fyrir leikmanninn þarf að selja hann næsta sumar.

„Það er stór spurning, ég veit það ekki,“ sagði Van Dijk aðspurður hvort hann ætlaði sér að vera hluti af næsta tímabili í sögu Liverpool. Samningar Trent Alexander-Arnolds og Mohamed Salah renna einnig út sumarið 2025.

Ásamt Klopp þá eru þeir Pepijn Lijnders, Peter Krawietz og Vitor Matos einnig að hætta hjá félaginu.

„Það er svo mikið sem mun breytast. Ég er mjög forvitinn að sjá hvaða stefnu félagið tekur en þegar það verður tilkynnt þá vitum við meira,“ bætti Van Dijk við.

Liverpool er sem stendur í fjórum keppnum. Liðið er á toppnum á ensku úrvalsdeildinni, í úrslitum enska deildarbikarsins, 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar og enn í ensku bikarkeppninni.

„Það verður endirinn á Klopp-tímanum. Ég er enn hluti af honum og vil því ekki tala of mikið um hann. Vonandi náum við þeim árangri sem okkur dreymir um og þegar þar að kemur þá vitum við vonandi meira um hvað félagið vill í framtíðinni, svo tökum við stöðuna.“


Tengdar fréttir

„Klopp er pabbi allrar borgarinnar“

Curtis Jones, leikmaður Liverpool, segir það sorglegar fréttir að Jürgen Klopp sé að hætta með liðið en Liverpool vann 5-2 sigur á Norwich City í ensku bikarkeppninni í gær í fyrsta leiknum eftir tilkynningu Þjóðverjans.

„Ekki hugsa meira um mig“

Jurgen Klopp stýrði Liverpool til sigurs í fyrsta leiknum síðan hann tilkynnti starfslok. 

Klopp hættir með Liverpool í vor

Jürgen Klopp hættir sem knattspyrnustjóri Liverpool en félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×