Fótbolti

Glódís lagði upp en Bayern missti af sæti í átta liða úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Glódís Perla lagði upp fyrra mark Bayern í kvöld, en liðið er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir grátlegt jafntefli.
Glódís Perla lagði upp fyrra mark Bayern í kvöld, en liðið er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir grátlegt jafntefli. Sebastian Widmann/Getty Images for DFB

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í þýska stórliðinu Bayern München eru úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir grátlegt 2-2 jafntefli gegn PSG í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld.

Glódís lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Giulia Gwinn á 36. mínútu og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Tabita Chawinga jafnaði metin fyrir PSG á 73. mínútu áður en Sydney Lohmann sá til þess að heimakonur endurheimtu forystuna tveimur mínútum síðar.

Lengi vel leit út fyrir að heimakonur myndu hanga á forystunni, en gestirnir jöfnuðu metin á 88. mínútu þegar Georgia Stanway varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og þar við sat.

Niðurstaðan því grátlegt 2-2 jafntefli og þar sem Ajax vann 2-1 sigur gegn Roma á sama tíma sitja Glódís og stöllur eftir með sárt ennið. Ajax fagnaði sigri í riðlinum með tíu stig, jafn mörg og PSG sem hafnaði í öðru sæti.

Bayern München endar hins vegar í þriðja sæti með sjö stig og Roma rekur lestina með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×