Lionel Messi var aðeins þrettán ára gamall þegar hann skrifaði undir sinn fyrsta samning við Barcelona. Skrifað var undir samninginn þann 14. desember árið 2000 en Messi var eftirsóttur og sótti Carles Rexach, þáverandi forseti Barcelona, hart að sækja Argentínumanninn. Ákvörðun sem hann sér varla eftir í dag.
Messi hafði verið á reynslu hjá spænsku risunum í september sama ár og skrifað var undir samninginn. Hann heillaði þá sem fylgdust með en innan félagsins heyrðust raddir um að ekki væri rétt að skrifa undir samning við þetta ungan leikmann sem þar að auki kom alla leið frá Argentínu.
Ætluðu að bjóða Messi til Real Madrid
Rexach óttaðist að Barcelona myndi missa af Messi og hafði Horacio Gaggioli, umboðsmaður Messi, sagt Rexach að ef Barcelona myndi ekki drífa sig í að klára samninginn þá myndi hann bjóða Messi til annarra félaga og var Real Madrid þar á meðal.
Rexach brást fljótt við og bauð Gaggioli til kvöldverðar í Barcelona. Hann hafði engan tíma til að prenta út samning en þurfti undirskrift umboðsmannsins engu að síður. Lausn Rexach var að grípa servíettu sem þeir félagar skrifuðu samninginn á. Á servíettunni var samkomulag reifað en viðstaddir voru tveir umboðsmenn Messi, Carles Rexach auk starfsmanns Barcelona.
„Servíettan braut ísinn“
Umrædd servíetta er nú á leið á uppboð hjá uppboðshúsinu Bonhams í London. Uppboðið fer fram 18.- 27. mars og verður upphafsverðið 300.000 pund eða rúmlega 50 milljónir íslenskra króna. Ian Hehling, yfirmaður hjá Bonhams uppboðshúsinu segir að servíettan sé einn af þeim mest spennandi hlutum sem hann hefur komist í snertingu við.
„Þetta er servíetta en hún markaði upphaf ferils Lionel Messi. Þetta breytti lífi Messi, framtíð FC Barcelona og var upphafið að nokkrum af mögnuðustu augnablikum knattspyrnunnar fyrir milljónir áhorfenda um allan heim,“ sagði Ehling í viðtali.
Umboðsmaðurinn Gaggioli kallaði atvikið á veitingastaðnum í Barcelona „stórkostlegt augnablik“.
„Servíettan braut ísinn. Lögfræðingar mínir litu á hana. Á servíettunni var allt sem þurfti, nafnið mitt, nafnið hans og dagsetningin. Henni var þinglýst og þetta var löglegt skjal.“
„Hún verður hluti af lífi mínu um alla tíð.