Enski boltinn

Ten Hag: Munur á agabrotum Rashford og Sancho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag og Marcus Rashford eru hér báðir hissa á dóm í leik Manchester United á móti Luton í ensku úrvalsdeildinni.
Erik ten Hag og Marcus Rashford eru hér báðir hissa á dóm í leik Manchester United á móti Luton í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Ash Donelon

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, henti Jadon Sancho í frystikistuna og loks út úr félaginu en Marcus Rashford fær allt aðra meðferð hjá hollenska stjóranum.

Rashford hefur verið mikið í fréttum undanfarin eftir agabrot sitt á dögunum en leikmaðurinn fór þá út á lífið í Belfast og skrópaði á síðustu tvær æfingar United fyrir bikarleik á móti Newport County undir þeim formerkjum að hann væri veikur.

Rashford fékk vissulega peningasekt og missti af þessum Newport leik en Ten Hag tekur hann strax aftur inn í hópinn fyrir leik kvöldsins á móti Úlfunum í ensku úrvalsdeildinni. Knattspyrnustjórinn segir að málið sé leyst og búið sé að taka á þessu.

Ten Hag var spurður út í ólíka meðferð sína á leikmönnunum tveimur. Lykilatriðið var að Sancho ákvað að gagnrýna stjórann opinberlega. Hann lét í ljós efasemdir um af hverju Ten Hag henti honum út úr hópnum fyrir stórleik á móti Arsenal í september.

Æfði einn í fjóra mánuði

Ten Hag vildi fá afsökunarbeiðni frá Sancho sem hann fékk ekki. Sancho þurfti fyrir vikið að æfa einn í meira en fjóra mánuði áður en félagið lánaði hann til Borussia Dortmund. Það er því rosalega mikill munur á refsingu leikmannanna tveggja.

„Við getum leyst öll svona mál innanhúss en Jadon ákvað að gera þetta opinbert,“ sagði Erik ten Hag. Hann segir því að það sé munur á agabrotum Rashford og Sancho.

„Í fyrsta lagi þá verða leikmann á þessu stigi að hugsa um sjálfa sig. Það er eitthvað sem þú getur krafist af leikmönnum,“ sagði Ten Hag.

Ekki barnapía

„Leikmenn verða að gera sér grein fyrir því hvað sé gott og hvað sé ekki gott. Ef þú vilt spila fótbolta á efsta stigi þá verður þú að lifa ákveðnu lífi. Alltaf,“ sagði Ten Hag.

Ten Hag lenti upp á kant við Cristiano Ronaldo og hefur tekið á agavandamálum hjá Alejandro Garnacho. Hann leggur áherslu á það að hann sé ekki barnapía.

„Við erum að tala um topp fótboltamenn. Ég þarf ekki að kenna þeim hvernig á að haga sér. Þegar þú ert að spila spila fyrir Manchester United þá ættir þú að vita það,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×