Vísindamenn Veðurstofu Íslands funduðu í morgun vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Niðurstaðan af fundinum verður birt í frétt á vef Veðurstofunnar síðar í dag, auk uppfærðs hættumatskorts.
Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur segir í samtali við fréttastofu að staðan nú sé þannig að út frá líkanreikningum sé áætlað að kvikumagn undir svæðinu á Svartsengi sé að nálgast sama magn og var fyrir síðasta gos, þann 14. janúar.
Kvikusöfnun hefur haldið áfram allt frá síðasta gosi. Land við Svartsengi hefur risið um allt að átta millimetra á dag sem er örlítið hraðara en fyrir gosið 14. janúar.
Einar býst við að á næstu dögum eða rúmri viku geti farið að draga til tíðinda á ný. Varað hefur verið við því að eldgos geti hafist með mjög skömmum fyrirvara.