Fótbolti

Son skaut Suður-Kóreu í undan­úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heung-Min Son reyndist hetja Suður-Kóreu í kvöld.
Heung-Min Son reyndist hetja Suður-Kóreu í kvöld. Lintao Zhang/Getty Images

Suður-Kórea tryggði sér í kvöld sæti í úndanúrslitum Asíumótsins í fótbolta með 2-1 sigri gegn Ástralíu í framlengdum leik.

Craig Goodwin kom Áströlum í forystu á 42. mínútu leiksins og sá til þess að liðið leiddi 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Það stefndi allt í að þetta yrði eina mark leiksins og að Ástralía væri þar með á leið í undanúrslit, en Suður-Kórea jafnaði metin á síðustu andartökum leiksins. Þar var á ferðinni Hee-Chan Hwang, leikmaður Wolves, á sjöttu mínútu uppbótartíma með marki úr vítaspyrnu og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Suður-Kóreumenn skoruðu eina mark framlengingarinnar þegar Heung-Min Son skoraði beint úr aukaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar. Ástralska liðið gróf sig enn dýpra þegar Aiden O'Neill fékk að líta beint rautt spjald örfáum mínútum síðar og úrslitin voru þar með ráðin.

Suður-Kórea er á leið í undanúrslit þar sem liðið mætir Jórdaníu, en Jóradnía vann 1-0 sigur gegn Tadjikistan fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×