Fótbolti

Jessi­e Lingard til FC Seoul ef allt gengur upp

Siggeir Ævarsson skrifar
Lingard þegar allt lék í lyndi
Lingard þegar allt lék í lyndi EPA-EFE/PETER POWELL

Félagaskipti Jessie Lingard til S-Kóreu virðast vera að ganga í gegn. Leikmaðurinn er með tilboð á borðinu frá FC Seoul og gildir samningurinn til tveggja ára.

Fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá þessum tíðindum en á vef Sky Sports í gær var fullyrt að Lingard hefði úr 26 tilboðum að velja, þar af einu frá liði í Seríu A á Ítalíu. Á vef Eurosport var liðið nafngreint sem Lazio.

Hvort það voru Ítalarnir sem misstu áhugann eða Kóreumenn sem buðu betri laun er ljóst að Lingard virðist hafa valið að skella sér í ævintýraferð á nýjar slóðir í austri.

Lingard hefur verið án félags síðan síðasta vor. Hann lék síðast með Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði núll mörk í 17 deildarleikjum. Seinni hluta tímabilsins 2020-21 var þessi fyrrum leikmaður Manchester United á láni hjá West Ham og virtist ganga þar í gegnum endurnýjun lífdaga þar sem hann skoraði níu mörk í 16 deildarleikjum.

Síðan þá hefur fátt gengið upp hjá Lingard sem er orðinn 31 árs og á að baki 32 landsleiki fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×