Við förum einnig yfir stöðuna í Miðausturlöndum í fréttatímanum, þar sem allt virðist á suðupunkti. Bandaríkjamenn og Bretar réðust á skotmörk Húta, Bandaríkjamenn heita enn fremur frekari aðgerðum á svæðinu vegna árásar í Jórdaníu síðustu helgi og Ísraelsmenn beina nú spjótum sínum að borginni Rafah á Gasa - þar sem fyrir ríkir neyðarástand vegna fjölda flóttamanna.
Þá hittum við sóttvarnalækni í beinni útsendingu vegna mislingasmits sem greindist á Landspítalanum í gær. Hún hefur áhyggjur af mögulegum faraldri.
Við kynnum okkur líka forvitnilegar vendingar í tækniheiminum vestanhafs. Læknar hjá Neuralink, fyrirtæki í eigu auðjöfursins Elon Musk, græddu í vikunni þráðlausa tölvuflögu í heila manneskju. Taugalæknir segir að með flögunni geti fólk vonandi endurheimt sjón og hreyfigetu að einhverju leyti.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum klukkan hálf sjö.