Körfubolti

Doc Rivers þjálfar stjörnuliðið gegn vilja sínum

Siggeir Ævarsson skrifar
Doc Rivers er ekki sáttur með að fá að þjálfa Stjörnuliðið
Doc Rivers er ekki sáttur með að fá að þjálfa Stjörnuliðið vísir/Getty

NBA-deildin hefur tilkynnt um þjálfara stjörnuliða austur- og vesturstrandar en stjörnuleikurinn fer fram þann 18. febrúar næstkomandi. Doc Rivers mun þjálfa lið austurstrandarinnar og hefur sú ákvörun vakið töluverða athygli.

Rivers tók við liði Milwaukee Bucks nokkuð óvænt þann 23. janúar en Adrian Griffin var með 30 sigra í 43 leikjum á tímabilinu og í 2. sæti austurdeilarinnar á eftir Boston Celtics.

Þegar þjálfarar stjörnuliðanna eru valdir er sá háttur hafður á að þeir þjálfarar sem eru með bestan árangur á hvorri strönd eru sjálfkrafa valdir til starfa. Sú undantekning er þó gerð að enginn fær að þjálfa tvö ár í röð. Er sú regla kennd við hinn goðsagnakennda þjálfara Pat Riley sem átti tilkall til að þjálfa lið vesturstrandarinnar átta sinnum á níu tímabilum á 9. áratugnum þegar hann þjálfaði Lakers.

Þar sem Joe Mazzulla, þjálfari Boston Celtics, þjálfaði lið austurstrandarinnar í fyrra, er þjálfari Bucks næstur í goggunaröðinni. Rivers hefur stýrt liði Bucks í þremur leikjum og unnið einn.

Þessi ákvörðun hefur vakið töluverða athygli og er Rivers sjálfur ekki sáttur og sagði að þetta væri algjörlega fáránlegt.

„Tja, Adrian mun fá eitthvað að peningunum, það er nokkuð ljóst, og hring. Þetta er ansi sérstakt. Mér finnst að það ætti að vera einhver regla að einhver annar en ég geri þetta.“

Rivers landaði sínum fyrsta sigri með Bucks þegar liðið lagði Dallas Mavericks, 129-117, síðustu nótt. Sá sigur gerði það að verkum að Rivers tryggði sér þjálfarasætið hjá stjörnuliðinu. Sérfræðingarnir í Inside the NBA fóru yfir möguleikana fyrir leikinn og var greinilega skemmt yfir þessari sérkennilegu stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×