Innlent

Upp­götvuðu risa­stóra sprungu undir gervigrasinu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sprungan í íþróttahúsinu kom í ljós í dag.
Sprungan í íþróttahúsinu kom í ljós í dag. Kristinn Magnússon

Risavaxin sprunga fannst í dag undir íþróttahúsinu Hópinu í Grindavík. Legið hafði fyrir að húsnæðið hafði orðið fyrir miklum skemmdum, en sprungur liggja upp eftir byggingunni og sigdalur er þar í kring.

Í dag fóru sérsveitarmenn í línum inn í Hópið og flettu gervigrasinu ofan af fótboltavelli inni í því til að kanna skemmdirnar nánar. Þar blasti við djúp og breið sprunga.

Að sögn almannavarna liggur umfang hennar ekki fyrir, en það verður kannað betur á næstunni. Vinna við að kortleggja sprungur hefur staðið yfir undanfarið í bænum.

Íbúar og atvinnurekendur fengu að fara inn í Grindavík í dag til þess að bjarga verðmætum. Enn eru taldar auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi, en áætlað magn kviku undir Svartsengi hefur náð neðri mörkum þess sem talið er að hafi safnast þar saman fyrir síðasta eldgos.

Myndband af sprungunni má sjá hér að neðan:

s

Í gær fengu fjölmiðlar að fara til Grindavikur undir eftirliti í fyrsta sinn í þrjár vikur. Þar mátti sjá bæjarfélagið í vetrarbúningi, flutningabíla íbúa á þeytingi með búslóðir og einn bát í höfninni. Vinna við varnargarða stendur enn yfir. Björn Steinbekk tók myndefnið sem má sjá hér að neðan:

Fleiri myndir af sprungunni má sjá hér að neðan.

Sprungan var í kjölfarið skoðuð. Kristinn Magnússon
Hópið í dag. Kristinn Magnússon
Hún virðist vera djúp. Kristinn Magnússon
Unnið að því að kanna sprunguna. Kristinn Magnússon

Tengdar fréttir

Svipuð merki og fyrir síðustu tvö gos

Benedikt G. Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni, segir að miklar líkur séu taldar á þriðja eldgosinu á Reykjanesi á nokkurra mánaða tímabili. Staðan sé svipuð og fyrir síðastu gos.

Brenni­steins­lykt í tóm­legri Grinda­vík

Verðmætabjörgun hélt áfram í Grindavík í dag. Fjölmiðlar fóru inn í bæinn í fyrsta sinn í þrjár vikur og fengu að virða fyrir sér skemmdirnar og nýja hraunið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×