Mesta spennan var í viðureign Plymouth og Leeds, sem bæði leika í ensku B-deildinni. Gestirnir í Leeds voru mun hættulegri lengst af og náðu loks forystunni með marki frá Wilfried Gnonto á 66. mínútu.
Það var í raun ekki mikið sem benti til þess að Plymouth myndi jafna metin, en það gerði liðið þó þegar Brendan Galloway kom boltainum í netið á 78. mínútu og því þurfti að framlengja til að skera úr um sigurvegara.
Í framlengingunni reyndust gestirnir frá Leeds sterkari og mörk frá Crysencio Summerville, Georginio Rutter og eitt stykki sjálfsmark á lokamínútunum tryggðu liðinu 4-1 sigur.
Þá vann Southampton 3-0 sigur gegn Watford þar sem Sekou Mara skoraði tvö mörk fyrir heimamenn áður en Che Adams bætti þriðja markinu við þegar um stundarfjórðungur var eftir.
Að lokum vann Coventry öruggan 4-1 sigur gegn Sheffield Wednesday og Coventry, Southampton og Leeds eru þar með á leið í fimmtu umferð FA-bikarsins.
Búið er að draga í fimmtu umferðina og nú þegar er orðið ljóst að Leeds mætir annað hvort Chelsea eða Aston Villa á útivelli, Southampton heimsækir Liverpool og Coventry tekur á móti utandeildarliði Maidstone.