Gazzetta dello Sport greinir frá því að Juventus vilji fá Albert ef Federico Chiesa skrifar ekki undir nýjan samning við félagið.
Chiesa er samningsbundinn Juventus til 2025 en samkvæmt ítölskum fjölmiðlum hefur félagið ekki ráð á því að bjóða honum betri samning.
Juventus hefur væntanlega samningsviðræður við Chiesa fyrir Evrópumótið í sumar en ef þær ganga ekki horfir félagið til Alberts sem hefur átt frábært tímabil með Genoa í vetur.
Albert er eftirsóttur en Genoa hafnaði tilboðum Fiorentina í hann í síðasta mánuði. Talið er að Genoa vilji fá fjörutíu milljónir evra fyrir Albert.
Juventus er í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 53 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Inter. Genoa er í 11. sætinu með 29 stig.
Albert hefur skorað níu mörk og lagt upp tvö í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur. Þá hefur hann skorað tvö mörk í jafn mörgum bikarleikjum. Albert gekk í raðir Genoa frá AZ Alkmaar fyrir tveimur árum. Hann er samningsbundinn Genoa til 2027.