Innlent

Sindri segir meinta skipu­lagningu hryðju­verka hafa verið grín

Árni Sæberg skrifar
Sindri Snær segist engin hryðjuverk hafa skipulagt.
Sindri Snær segist engin hryðjuverk hafa skipulagt. Vísir/Árni

Sindri Snær Birgisson segir í skýrslutöku fyrir dómi að hann hafi ekki með nokkru móti verið að skipuleggja hryðjuverk þegar hann ræddi við félaga sinn um fjöldamorð, kaup á lögreglufatnaði, aðdáun á fjöldamorðingjum og fleira í þeim dúr. „Ég neita þessu alfarið, þetta er bara galið.“ Hann og verjandi hans hafa gagnrýnt ákæruvaldið harðlega fyrir að taka hlutina úr samhengi.

Þetta kom fram í framburði Sindra Snæs fyrir dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu svokallaða hófst í morgun.

Dagurinn hófst á því að Sindri Snær tók afstöðu til þeirra ákæruliða sem snúa að vopnalagabrotum.

Sindri Snær sætir ákæru fyrir að hafa með athöfnum og yfirlýsingum sýnt í verki áform sín til þess að fremja hryðjuverk. Athafnir og yfirlýsingar Sindra Snæs eru reifaðar ítarlega í 63 liðum ákærunnar.

Vísir greindi ítarlega frá efni ákærunnar þegar hún var gefin út:

Svarar öllu á sama máta

Sindri Snær hefur verið spurður ítarlega, oft of ítarlega að mati dómaranna þriggja í málinu, út í hvern lið ákærunnar og þau samskipti sem í þeim er lýst. Sindri Snær hefur nánast á undantekninga svarað svo að um grín hafi verið ræða milli hans og meðákærða Ísidór Nathanssyni.

Þeir hafi báðir mjög svartan húmor og engin alvara hafi verið á bak við samræður þeirra.

„Ég segi margt og segi alls konar vitleysu. Ég meina ekki allt sem ég segi.“

Til að mynda segist hann hafa verið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og búinn að drekka í tvo sólarhringa þegar hann sendi skilaboð um að hann væri á grensunni með að fremja fjöldamorð.

Las stefnuskrá Breiviks sér til dægrastyttingar

Í ákærunni segir að Sindri Snær hafi sýnt áform sín um að fremja hryðjuverk meðal annars með því að sækja, móttaka og tileinka sér efni um þekkta aðila sem framið hafa hryðjuverk, tileinka sér aðferðafræði þeirra og hugmyndafræði.

Í ákæru eru talin upp sautján tilvik þar sem Sindri Snær til að mynda sótti stefnuskrá norska hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik.

Sindri Snær gengst við því að hafa sótt stefnuskrána en hann hafi ekki tileinkað sér aðferða- eða hugmyndafræði sem í henni er lýst. Hann hafi lesið ritið eins og hverja aðra bók, sér til dægrastyttingar.

Þá er vísað til stefnuskrár Breiviks í fjölda liða ákærunnar, svo sem þar sem ferðir Sindra Snæs um Internetið eru tíundaðar. Þannig er það tengt saman að hann hafi leitað að eiturefnum á borð við rísín og blásýru og að Breivik hafi minnst á efnin í skrifum sínum. Þetta segir Sindri Snær hafa verið alls ótengt.

Kannast ekkert við að hafa mælt lokanir vegna Gleðigöngunnar

Sindra Snæ er gefið að sök að hafa undirbúið hryðjuverk á Hinsegin dögum í Reykjavík með því að hafa farið „á vettvang“ og mælt lengd milli lokana, með það að markmiði að sjá hvort unnt væri að aka bíl á milli.

Þetta sagðist Sindri Snær ekkert kannast við að hafa gert. Þá gerði Sveinn Andri Sveinsson, verjandi hans, athugasemd við það að „vettvangur“ væri ekki tilgreindur með nákvæmari hætti í ákæru. Aðspurður kvaðst sækjandi ekki geta skýrt það nánar.

Verjandi hans spurði hann þá hvar hann hefði verið dagana í aðdraganda Gleðigöngunnar. Hann kvaðst hafa komið heim af Þjóðhátíð 31. júlí, verið með unnustu sinni dagana fram að Gleðigöngu og farið með henni til Hveragerðis sama dag og gangan var. Þannig hafi hann ekki verið með hugann við hryðjuverk.

Í sama kafla ákærunnar var fjallað um það að Sindri Snær hefði  athugað hvenær Ramadan, föstumánuður múslima, væri. Sindri Snær sagðist hafa heyrt viðtal við mann sem mælti með föstum í hlaðvarpi Joes Rogan. Því hafi hann verið forvitinn um það hvernig Ramadan virkaði.

Hafi verið sár og dapur

Undir lokin spurði verjandi Sindra Snæs hann hvaða áhrif málið hefði haft á hann frá því að það kom upp í september árið 2022.

Sindri Snær sagði undanfarið rúma ár hafa verið frekar ömurlegt. Hann hafi ekkert unnið og hefði ekki einu sinni reynt að verða sér úti um vinnu. Hann sé þó nýbyrjaður í námi.

Hann sagðist ekki vera reiður út í nokkurn mann vegna málsins, hann væri frekar sár og dapur. Hann hafi glímt við þunglyndi og sótt sálfræðitíma vegna þess. Hann hafi þó ekki þegið nein lyf, enda sé honum illa við þau.

Þá sagði hann að þau unnusta hans væru enn saman, hún vinni sem sjúkraþjálfari í Svíþjóð og hann hafi heimsótt hana þangað.


Tengdar fréttir

Sendu hjarta­hlý skila­boð eftir meinta skipu­lagningu hryðju­verka

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar sakbornings í hryðjuverkamálinu, segir að margt sem umbjóðandi hans sé sakaður um sé hreinn tilbúningur. Hann sakar ákæruvaldið um að leggja fram samtöl mannanna, í mörgum tilfellum, á samhengislausan hátt þannig að ekki sé hægt að lesa það á réttan hátt.

Ný á­kæra í hryðju­verka­málinu

Héraðssaksóknari hefur ákveðið að gefa út nýja ákæru í hryðjuverkamálinu svokallaða, þar sem tveir menn voru grunaðir um skipulagningu hryðjuverka. Fyrri ákæru var vísað frá dómi, bæði í héraði og fyrir Landsrétti.

Frá­vísun í hryðju­verka­málinu stað­fest með minnsta mun

Landsréttur hefur staðfest frávísun á þeim köflum ákæru á hendur tveimur karlmönnum á þrítugsaldri er fjallar um hryðjuverk, tilraun til hryðjuverka og hlutdeild í tilraun til hryðjuverka. Tveir dómarar Landsréttar vildu staðfesta frávísun úr héraðsdómi en einn vildi fella úrskurðinn úr héraði úr gildi. Héraðssaksóknari hefur þrjá mánuði til að gefa út nýja ákæru.

Hryðju­verka­á­kæran „hvorki fugl né fiskur“ og rök á­kæru­valdsins haldi ekki

Verjendur tveggja manna sem eru ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka og hlutdeild segja verulega galla í ákærunni. Ef ákæruliðum sem snúa að hryðjuverkabrotum verði ekki vísað frá verði þetta líklega í fyrsta sinn sem ákæra sem sé jafn óljós og almennt orðuð slyppi í gegn. Saksóknari ber fyrir sig að ekki hafi verið hægt að skýra málin betur, sem dómari hefur gagnrýnt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×