Handbolti

Dagur yfir­gefur von­svikna Japani

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson hefur gert frábæra hluti sem landsliðsþjálfari Japans.
Dagur Sigurðsson hefur gert frábæra hluti sem landsliðsþjálfari Japans. Getty/Slavko Midzor

Handboltaþjálfarinn Dagur Sigurðsson er hættur þjálfun japanska karlalandsliðsins sem hann hefur stýrt frá árinu 2017, þrátt fyrir að samningur hans hafi náð fram yfir Ólympíuleikana í sumar.

Þetta staðfestir japanska handknattleikssambandið í dag og segir að Dagur muni taka við öðru landsliði. Ljóst má vera að það lið verður Króatía sem rak þjálfarann Goran Perkovac eftir slæma frammistöðu á nýafstöðnu Evrópumóti.

Ekki hefur náðst í Dag en króatískir fjölmiðlar hafa fjallað um komu hans til Zagreb og að hann sé helsti kandídatinn í stöðu landsliðsþjálfara hins öfluga króatíska liðs. 

Japanir eru greinilega vonsviknir yfir ákvörðun Dags og lýsa því að hann hafi allt í einu tilkynnt sambandinu um að hann vildi hætta með japanska liðið, til að taka við öðru liði fyrir Ólympíuleikana. Það hafi hann gert 3. febrúar, þrátt fyrir að vera með samning sem gildir fram yfir Ólympíuleikana í París sem hann tryggði Japan inn á.

Kveðst japanska sambandið ætla að bregðast við þessu með viðeigandi hætti, í samræmi við samninginn. Ætlunin er að ráða nýjan þjálfara sem fyrst.

Dagur á, ef að líkum lætur, ærið verkefni fyrir höndum með Króata um miðjan mars, þegar þeir spila í undankeppni Ólympíuleikanna. Þar er Króatía í riðli með Þýskalandi Alfreðs Gíslasonar, Austurríki og Alsír. Leikið verður í Þýskalandi og komast tvö efstu liðin áfram á Ólympíuleikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×