Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra greindi frá vendingunum á fundi ríkisstjórnar í morgun. Hún hefur þegar fallist á beiðni Ingveldur að láta af störfum. Ingveldur er á 65. aldursári og aldursforseti Hæstaréttar.
Ingveldur var skipuð dómari við Hæstarétt í árslok 2019 en hún kom úr þá nýskipuðum Landsrétti. Hún var skipuð héraðsdómari árið 1999, var fyrstu árin dómstjóri við Héraðsdóm Suðurlands og svo í tæpan áratug við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Ingveldur er stúdent frá MR, lauk embættisprófi við lagadeild HÍ árið 1985 og sérhæfði sig síðar í umhverfisrétti og mannréttindum í Svíþjóð og Noregi.
Hún var formaður Dómarafélags Íslands frá 2009 til 2011, formaður Barnaverndarráðs Íslands 1997 til 2002 og formaður kærunefndar barnaverndarmála frá 2004 til 2013.
Sjö dómarar sitja í Hæstarétti, fjórir karlar og þrjár konur.