Erlent

Segja göng Hamas liggja undir höfuð­stöðvum UNRWA

Árni Sæberg skrifar
Ísraelsmenn í göngum Hamas, sem sögð eru beint undir höfuðstöðvum UNRWA.
Ísraelsmenn í göngum Hamas, sem sögð eru beint undir höfuðstöðvum UNRWA. Ariel Schalit/AP

Talsmenn Ísraelshers segja að mörg hundruð metra langt ganganet Hamas hafi fundist á Gasa. Göng hryðjuverkasamtakanna liggi meðal annars undir höfuðstöðvum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA.

Í frétt Reuters um málið segir að fréttamönnum hafi verið boðið í vettvangsferð um göngin í fylgd sérfræðinga Ísraelshers. Eftir um tuttugu mínútna göngu í steikjandi hita ofan í göngunum hafi leiðsögumaður ferðarinnar sagt hópinn vera undir höfuðstöðvum UNRWA.

Ísraelskur hermaður slakar myndavél ofan í göng Hamasliða. Þessi mynd er tekin innan lóðar UNRWA.Ariel Schalit/AP

Þar hafi mátt sjá einhvers konar skrifstofurými með verðmætaskápum og tölvuþjónaherbergi. „Öllu er stýrt héðan. Allt rafmagnið fyrir göngin sem þið genguð í gegnum kemur héðan. Þetta er ein miðstöðva leyniþjónustunnar, þetta er einn af stöðunum þar sem leyniþjónusta Hamas stýrði átökunum,“ er haft eftir Ido, liðforingja Ísraelshers, sem leiddi vettvangsferðina.

Kannast ekkert við göngin

Töluvert hefur gustað um Palestínuflóttamannaaðstoðina eftir að fullyrt var að hluti starfsmanna hennar væru hliðhollir Hamas. Það hefur meðal annars leitt til þess að fjöldi ríkja hefur stöðvað eða fryst greiðslur til stofnunarinnar. Ísland er með þeirra sem hafa fryst greiðslur.

Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að höfuðstöðvar hennar á Gasaströndinni hefðu verið rýmdar þann 12. október síðastliðinn, fimm dögum eftir að stríðið hófst. Því gæti stofnunin ekki staðfest tilvist ganganna né tjáð sig um þau að öðru leyti.

„UNRWA býr hvorki yfir hernaðar- og öryggismálaþekkingu né getu til þess að ráðast í rannsóknir á því hvað er, eða gæti verið, undir bækistöðvum stofnunarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×