Fótbolti

Hareide mælir með að Svíar ráði íslenskættaða þjálfarann

Sindri Sverrisson skrifar
Jon Dahl Tomasson er hættur með Blackburn.
Jon Dahl Tomasson er hættur með Blackburn. Getty/Andrew Kearns

Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta, er sannfærður um að Daninn Jon Dahl Tomasson sé rétti maðurinn til að taka við sænska landsliðinu.

Jon Dahl Tomasson á ættir að rekja til Íslands því langafi hans, Tómas Halldórsson, var Íslendingur.

Hann hefur undanfarið þjálfað Blackburn, lið Arnórs Sigurðssonar, en hætti með enska liðið í síðustu viku og er talið afar líklegt að Tomasson taki við sænska landsliðinu. John Eustace tók við Blackburn af honum, eftir að hafa gert fína hluti með Birmingham.

Hinn norski Hareide, sem var með Tomasson sem aðstoðarmann hjá danska landsliðinu, er sannfærður um að það sé rétt ákvörðun hjá Svíunum.

„Fullkomið val. Hann mun standa sig mjög vel með Svíþjóð,“ sagði Hareide samkvæmt danska miðlinum Bold.dk.

„Jon leggur hart að sér og er með skýra sýn á það hvernig hann vill spila. Það passaði vel við það hvernig ég vildi láta Danmörku spila. Hann er með mikla reynslu úr alþjóðafótboltanum, bæði sem leikmaður og þjálfari.

Sem leikmaður var hann með góða þjálfara eins og Carlo Ancelotti, Giovanni Trapattoni og Manuel Pellegrini. Jon var mjög áhugasamur og vildi gjarnan læra sem mest af þjálfurunum,“ sagði Hareide.

Bold segir að það geti enn tekið nokkrar vikur að ganga frá öllum málum áður en Tomasson verði kynntur sem nýr landsliðsþjálfari Svía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×