Þetta segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, í samtali við Vísi. Hann greindi frá tíðindunum í morgunútvarpinu í Ríkisútvarpinu í morgun.
Hann segir að skip á kolmunnaveiðum hafi verið beðin um að framkvæma aukaleit á leið sinni í land og Svanur RE 45 hafi greint stóra torfu nálægt Rósagarðinum svokallaða undan suðausturströnd Íslands á Íslands-Færeyjahrygg. Tvö önnur skip á svæðinu hafi sömuleiðis orðið vör við torfuna.
Gæti líka verið síld
Hafrannsóknarstofnun hafi ekki enn fengið sýni úr torfunni og því sé ekki hægt að fullyrða að um loðnu sé að ræða. Guðmundur telur þó líklegra að um loðnu en síld hafi verið að ræða.
Hann segir að rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni hafi verið stefnt að svæðinu til mælinga. Hann verði kominn þangað síðdegis í dag og niðurstöðu sé að vænta um helgina eða snemma eftir helgi. Þá sé uppsjávarskipið Polar Ammassak á leið að Rósagarðinum til mælinga. Það hefur verið undan Vestfjörðum við skipulagða loðnuleit.
Halda enn í vonina og fá jákvæð tíðindi
Sú leit skilaði dræmum niðurstöðum en hafró tilkynnti í fyrradag að sáralítið hefði fundist af loðnu undan Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum.
Fréttastofan heyrði þá hljóðið í forystumönnum þriggja sjávarútvegsfyrirtækja, þeim Gunnþóri Ingvasyni frá Síldarvinnslunni, Binna í Vinnslustöðinni og Stefáni Friðrikssyni frá Ísfélaginu. Þeir sögðust allir enn hafa trú á því að loðnan fyndist. Þeir bentu á að hún væri duttlungafull og það hefði stundum gerst að hún hefði ekki fundist fyrr en eftir miðjan febrúar.
„Það er jákvætt, ef þetta er loðna, að við séum loks að sjá loðnugöngu koma hingað til hrygningar. Við höfum ekki séð það það sem af er ári. Það er það jákvæða við þetta en svo verður að koma í ljós hvort magnið sé nægilegt til að gefa út kvóta. Það skýrist ekki fyrr en eftir helgi eða um helgina, á ég von á,“ segir Guðmundur.