Sókolóv tók við starfinu undir lok árs 2022 en síðan þá hefur Svartahafsfloti Rússlands beðið mikla hnekki í átökunum við Úkraínumenn. Fjölmörgum herskipum hefur verið sökkt eða þeim grandað í eldflaugaárásum.
Sjá einnig: Skemmdu herskip og kafbát með stýriflaugum
Á meðan Úkraínumenn glíma við skotfæraleysi og umfangsmiklar sóknir Rússa í austri, hefur þeim vegnað mjög vel á Svartahafi. Með því að sökkva fjölmörgum herskipum Rússa, bæði stórum og smáum, hafa Úkraínumenn getað komið í veg fyrir að Rússar loki fyrir umferð fraktskipta til og frá Úkraínu.
Áætlað er að þegar innrásin í Úkraínu hófst hafi um sjötíu skip og bátar verið í flotanum. Rússar geta ekki sent liðsauka til Svarthafsflotans þar sem yfirvöld í Tyrklandi hafa lokað á umferð herskipa um Bosporussund.
Í gær sökktu Úkraínumenn herskipinu Sesar Kúnikov með fjarstýrðum sjálfsprengidrónum. Kunikov er af gerðinni Ropucha, en það eru herskip sem hönnuð eru til að flytja hermenn til orrustu. Þau hafa einnig verið notuð til að flytja hergögn til Krímskaga.
Minnst fjórum skipum af þessari gerð hefur verið sökkt eða þeim grandað með öðrum hætti.
Reuters hefur eftir yfirmönnum innan úkraínska hersins að í heildina hafi Úkraínumenn grandað 25 rússneskum herskipum og einum kafbáti. Meðal þeirra er skipið Moskva, sem var flaggskip flotans. Einungis fimm skip af gerðinni Ropucha eru eftir í Svartahafsflota Rússlands.
Hafa enn ekki tjáð sig um örlög áhafnarinnar
Ríkismiðlar Rússlands hafa enn lítið sem ekkert sagt um örlög skipsins sem sökkt var í gær.
Talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, vísaði fyrirspurnum um skipið í gær til varnarmálaráðuneytisins. Talsmenn þess hafa ekkert sagt enn. Allt að 89 manns voru í áhöfn skipsins, samkvæmt úkraínska hernum, en óljóst er hver örlög þeirra voru.
Rússneskir herbloggarar hafa sagt frá því í dag að Sókolóv hafi verið vikið úr embætti og er það í annað sinn sem skipt er um yfirmann Svartahafsflotans frá því innrásin í Úkraínu hófst fyrir tæpum tveimur árum. Bróðir Sókolovs er sagður hafa staðfest brottrekstur hans í samtali við herbloggara.
Admiral Viktor Sokolov has reportedly been removed from his command of the Russian Black Sea Fleet-- one day after yet another Russian ship was hit and damaged/sunk by Ukraine.https://t.co/SXeDEiMBuS https://t.co/htQiaQ1YU3https://t.co/jwTy32OBF6https://t.co/LYwmK9Jal3 pic.twitter.com/0yo8wjOc2z
— Mike Eckel (@mikeeckel.bsky.social) (@Mike_Eckel) February 15, 2024
Sókolóv hefur í gegnum árin oft verið heiðraður fyrir störf sín í rússneska sjóhernum. Þá leiddi hann leiðangra sjóhersins að ströndum Sýrlands árið 2020.
Úkraínumenn héldu því fram í september í fyrra að þeir hefðu fellt Sókolov í stýriflaugaárás á höfuðstöðvar Svartafhafsflotans á Krímskaga.