Ellefu mörk Arsenal í tveimur leikjum og annar risa­sigur

Bukayo Saka og Martin Odegaard voru á skotskónum fyrir Arsenal í dag.
Bukayo Saka og Martin Odegaard voru á skotskónum fyrir Arsenal í dag. Vísir/Getty

Lið Arsenal í ensku úrvalsdeildinni er heldur betur á flugi því liðið vann í dag 5-0 sigur á Burnley. Arsenal hefur nú skorað ellefu mörk í síðustu tveimur leikjum sínum í ensku deildinni.

Um síðustu helgi vann Arsenal 6-0 stórsigur á West Ham í Lundúnaslag. Fyrir leikinn gegn Burnley í dag var Arsenal fimm stigum á eftir Liverpool en átti leikinn gegn West Ham til góða.

Gestirnir voru ekki lengi að taka forystuna. Fyrirliðinn Martin Ödegaard skoraði strax á 4. mínútu með frábæru skoti frá vítateigslínu. Á 41. mínútu tvöfaldaði Bukayo Saka svo forystuna þegar hann skoraði úr víti eftir að Leandro Trossard var felldur.

Staðan í hálfleik var 2-0 og kom Jóhann Berg Guðmundsson inn af bekknum í hálfleik. Hann kom þó ekki í veg fyrir að Saka bætti öðru marki sínu við áður en síðari hálfleikur varð tveggja mínútna gamall. Hann skoraði þá með föstu skoti á nærstöngina framhjá James Trafford í marki Burnley.

Leikmenn Arsenal voru þó hvergi nærri hættir. Trossard bætti fjórða markinu við á 66. mínútu og Kai Havertz því fimmta á 78. mínútu þegar hann fékk boltann úr innkasti, fór auðveldlega inn í teiginn og skoraði framhjá Trafford. Yfirburði Arsenal algjörir og varnarleikur heimamanna til skammar.

Arsenal var líklegra liðið til að bæta við marki í lokin en tókst ekki. Lokatölur 5-0 og Arsenal fer með blússandi sjálfstraust í leik gegn Porto í Meistaradeildinni í vikunni. Burnley er hins vegar í vondum málum, liðið er sjö stigum á eftir Luton sem situr í síðasta örugga sæti úrvalsdeildarinnar og hefur leikið tveimur leikjum meira.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira