Fótbolti

Svarar orðrómum um á­huga Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ange Postecoglou ætlar að einbeita sér að sinni vinnu hjá Tottenham áður en hann fer að velta fyrir sér orðrómum um Liverpool.
Ange Postecoglou ætlar að einbeita sér að sinni vinnu hjá Tottenham áður en hann fer að velta fyrir sér orðrómum um Liverpool. Nigel French/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur svarað þeim orðrómum um að Liverpool hafi áhuga á því að fá hann til að taka við liðinu þegar Jürgen Klopp kveður félagið að yfirstandandi tímabili loknu.

Ástralinn er einn af þeim sem hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur arftaki Klopp sem knattspyrnustjóri Liverpool, en Postecoglou var harður stuðningsmaður Liverpool á sínum yngri árum.

Postecoglou hefur farið vel af stað með Tottenham síðan hann tók við liðinu í sumar og Tottenham situr nú í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 47 stig eftir 24 leiki, sjö stigum á eftir toppliði Liverpool. Hann er að klára sitt fyrsta ár sem stjóri Tottenham, en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið síðastliðið sumar.

„Ég er bara búinn að vera hérna í sjö mánuði þannig ég held að þetta segi sig allt sjálft,“ sagði Postecoglou á blaðamannafundi í dag.

„Það særir mig að segja það að við eigum enn langan veg framundan þegar kemur að fótboltanum sem við viljum spila, liðinu sem við viljum vera og hópnum sem við viljum hafa. Við erum bara búnir að eiga tvo góða glugga og erum búnir að eiga fínt tímabil, en það er mikið eftir.“

Þá virðist Ástralinn ekki mikið vera að velta þessum orðrómum fyrir sér.

„Núna snýst þetta um að klára tímabilið vel með Tottenham og að koma upp sterkum grunni sem við getum byggt á í framtíðinni. Við getum einungis gert það ef ég er fullkomlega einbeittur á þessa fjórtán leiki sem við eigum eftir og hvað þeir geta gert fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×