Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Dóttir mín er morgunhani fjölskyldunnar og hún vekur mig með mjög mismunandi glæsibrag um sjö leytið.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Fyrst langar mig til rota mig, taka inn eitur eða bara eitthvað til að fara ekki á fætur og svífa aftur inn í draumaheiminn.
Svo skánar þetta aðeins eftir fimm mínútur.
Ég píni mig á lappir og fæ mér grænan, urrandi, hressandi vítamíndrykk sem er mjög góður fyrir þarmaflóruna, lýsi og svo rótsterkan expressó. Þá peppast ég upp og fæ óbilandi trú á lífinu og get ekki beðið eftir því að labba í vinnuna, hlusta á fréttir, tónlist og mæta ferskur í vinnuna.“
Á skalanum 1-10: Hversu gaman finnst þér að spila?
„Ég trompa með 10! Ég elska að spila tónlist. Það er ástríðan mín, áhugamálið og hugleiðsla. Spila, semja og taka upp tónlist. Spila tónlist með vinum mínum. Spila og hlusta á hljómplötur.
Get svo alveg dottið í góð spil. Stundaði spilagaldra sem ungur maður. Mér finnst Spilabúðin æði og það er alltaf fjör að kaupa nýtt spil og spila með fjölskyldunni og vinum; Katan, spurningaspil og sitthvað fleira.
Svo er auðvitað mest gaman að spila með fólk. Ástin er pókerspil, leggðu undir og spilaðu með!“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Hringrásarhagkerfið á hug minn allan og er kjarninn í allri starfsemi SORPU. Það er vísirinn að umhverfisvænni, hagkvæmari og skemmtilegri veröld.
Ég er líka að klára sjónvarpsþætti fyrir RÚV sem bera heitið Endurtekið sem fjalla um hringrásarhagkerfið og hvernig mestu tækifæri 21. aldarinnar liggja í ruslinu.
Svo er ég að búa til mjög speisaða plötu með vinum mínum í Geimfuglunum, rafsveit Geirfuglanna, veislustýra og skemmta um helgar. Það er ótrúlegur munaður að geta unnið við það að leika og skemmta sér!“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég er að upplagi alveg hræðilega óskipulagður maður. En góð eiginkona, gott samstarfsfólk og góð verkefnastjórnunarforrit og dagatöl hafa bjargað lífi mínu.
Ég hata frasann „þetta reddast“. Það er lítill api í höfðinu á mér sem syngur þetta oft og ansi fjörugt. En það reddast ekkert nema með vinnu og skipulagningu. Ég er að læra þetta. Allt að koma.
Elska að klára verkefnin mín.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er að verða mjög reglufastur og kvöldsvæfur maður. Ég er virkilega góður í því að sofa sem er sennilega undirstaða alls þess góða sem ég hef gert í lífinu.
Það er afar mikilvægt fyrir góðan svefn að hreya sig eitthvað örlítið, borða kvöldmat snemma og lesa bók. Ekki góna of mikið á sjónvarp.
Best er að lesa langdregnar bækur um kulda og vosbúð. Ég er til dæmis núna að lesa bók um gúlögin í Sovétríkjunum og hún neglir mig hægt og örugglega í djúpan og góðan svefn.“