Fyrir leik Liverpool og Brentford í dag var nokkuð um forföll hjá Liverpool. Markvörðurinn Alisson meiddist á æfingu í vikunni og er ekki með. Þá tóku meiðsli sig upp að nýju hjá Trent Alexander-Arnold og Dominik Szoboszlai sem verða báðir frá fram yfir úrslitaleik Liverpool og Chelsea í deildabikarnum um næstu helgi.
„Við munum vita á næstu tveimur sólarhringum,“ sagði Klopp um meiðsli Alisson í viðtali fyrir leikinn í dag.
Fyrir utan þessa fastamenn liðsins eru Stefan Bajetic, Thiago og Joel Matip allir frá og verða í einhvern tíma áfram. Það er því ekki að undra að Jurgen Klopp hafi sett upp hálfgerðan skelfingarsvip á Vitality-leikvanginum áðan eftir að hafa þurft að skipta þremur leikmönnum af velli áður en síðari hálfleikur hófst.
Two HUGE injuries in the first 45 minutes for Liverpool
— Football on TNT Sports (@footballontnt) February 17, 2024
How unlucky can you get? pic.twitter.com/gEdj30KFiX
Fyrst meiddist miðjumaðurinn Curtis Jones og varð að fara af velli og síðan Portúgalinn Diogo Jota en hann var borinn af velli vegna meiðsla á hné. Í hálfleik var markaskorarinn Darwin Nunez síðan skipt út af en þó ekkert hafi verið gefið út um það enn er ólíklegt að Klopp hafi tekið hann af velli ef ekki væri um meiðsli að ræða.
Meiðsli þessara leikmanna gætu varla komið á verri tíma fyrir Klopp og lærisveina hans. Liðið á úrslitaleik í deildabikarnum um næstu helgi gegn Chelsea, er í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar og þá er útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar að fara af stað innan skamms.