Fótbolti

Højlund sá yngsti í sögunni til að skora í sex leikjum í röð

Siggeir Ævarsson skrifar
Højlund fagnar hér fyrsta deildarmarki sínu. Þau hafa síðan komið á færibandi
Højlund fagnar hér fyrsta deildarmarki sínu. Þau hafa síðan komið á færibandi Vísir/Getty

Eftir að hafa ekki skorað í 14 fyrstu deildarleikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni virðist Rasmus Højlund hreinlega ekki geta hætt að skora en hann hefur nú skorað í sex leikjum í röð.

Það er ágætis afrek að skora leik eftir leik en það sem gerir þessa tölfræði merkilega er að Højlund er nú orðinn yngsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem hefur skorað í sex leikjum í röð en Højlund er 21 árs og 14 daga gamall.

Højlund skoraði bæði mörk Manchester United í dag þegar liðið lagði Luton á útivelli og tók þar með þetta met úr höndunum á Joe Willock, leikmanni Newcastle, en hann var 21 árs og 272 daga gamall þegar hann skoraði í sínum sjötta leik í röð 19. maí 2021. Hann tók þá metið af markahróknum Romelu Lukaku.

Fyrir leikinn í dag var Højlund kominn í góðan hóp en hann var þá þegar annar yngsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora í fimm leikjum í röð, næstur á eftir hinum franska Nicolas Anelka sem var aðeins 19 ára þegar hann skoraði í fimm leikjum í röð fyrir Arsenal í nóvember 1998.

Rasmus Højlund er nú kominn með þrettán mörk í öllum keppnum fyrir Manchester United en liðið á næst leik gegn Fulham á heimavelli þann 24. febrúar þar sem honum gefst tækifæri til að bæta í metið.


Tengdar fréttir

Manchester United slapp með skrekkinn

Luton tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag. United fékk sannkallaða draumabyrjun þegar Rasmus Højlund skoraði strax á 1. mínútu og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora í sex leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×