Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallar í dag. Þar er rifjað upp að Reginn hafi í júní 2023 tilkynnt um ákvörðun stjórnar að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar.
Tilboðið er meðal annars háð því skilyrði að Samkeppniseftirlitið samþykki viðskiptin eða geri ekki athugasemdir við þau sem Reginn geti ekki sætt sig við. Samkeppniseftirlitið hefur haft málið á borði sínu og andmælt fyrirhuguðum kaupum. Áhyggjur eftirlitsins snúa að því að viðskiptin hindri virka samkeppni og verði ekki samþykkt að óbreyttu.
Reginn óskaði í framhaldi af því eftir sáttaviðræðum við eftirlitið á föstudag um hugsanleg skilyrði vegna viðskiptanna.
„Samhliða voru lögð fram sjónarmið félagsins að því er varðar frummat Samkeppnislitsins ásamt hugmyndum að skilyrðum. Tillögur Regins að skilyrðum lúta meðal annars að því að sameinað félag Regins og Eikar selji frá sér tilteknar eignir í því skyni að vinna gegn skaðlegum áhrifum sem Samkeppniseftirlitið telur að gætu leitt af viðskiptunum. Umræddar tillögur Regins að skilyrðum eru nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu,“ segir í tilkynning Regins.
„Vegna framangreinds hafa tímafrestir Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar á viðskiptunum framlengst um fimmtán virka daga. Tímafrestur Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar á samrunanum hefur því framlengst til 5. apríl næstkomandi. Gildistími tilboðsins rennur út þann 15. apríl.“