Innlent

Nýtt hættu­svæði í upp­færðu hættumati

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Svæði sjö bætist við sem hættusvæði.
Svæði sjö bætist við sem hættusvæði. veðurstofan

Líkanareikningar benda til að kvika nái svipaðri stöðu og fyrir síðasta eldgos í lok febrúar eða byrjun mars. Þetta kemur fram í uppfærðu hættumati.

Á vef Veðurstofunnar er greint frá uppfærðu hættumati í kjölfar þess að fallið var frá tilmælum um brottflutning úr Grindavík. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók ákvörðun um það í dag að Grindvíkingar og þeir sem starfa í bænum fá aðgengi að honum allan sólarhringinn. 

Á nýtt hættumatskort bætist sjöunda hættusvæðið. Innan svæðis 7 er Nesvegur, en aukinni umferð er nú beint um veginn vegna aðgengis að svæðinu við Svartsengi og Grindavík. Á svæðinu eru hættur vegna sprunguhreyfinga og jarðfalls ofan í sprungur. Litakóði annarra svæða er óbreyttur frá síðasta korti.

Hættusvæði vegna jarðhræringa. veðurstofan

„Eins og áður sýnir kortið mat á hættu sem er til staðar og hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hætta getur leynst utan þeirra,“ segir í tilkynningu.

Uppfært hættumatskort tekur gildi á morgun, 20. febrúar kl. 7, á sama tíma og nýjar reglur lögreglustjórans á Suðurnesjum um aðgengi að Grindavík taka gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×