„Þetta virkar á mig eins og geðþóttaákvörðun út í loftið, þetta er ekkert rökstutt. Það er ekkert kalt vatn í bænum, það er ekkert heitt neysluvatn í bænum og það er ekki vitað hvernig holræsakerfið virkar undir álagi. Af þessu ástæðum tel ég þetta bara ekki forsvaranlegt eins og er,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.
Hann segir að vissulega hafi sumir Grindvíkingar sótt það hart að fá að fara í bæinn til að sinna atvinnustarfsemi. Slík mál þurfi þó að nálgast af skynsemi.
„Og á grundvelli öryggis og bestu fáanlegu upplýsinga hjá sérfræðingum í jarðfræði.“
Koma þurfi til móts við fólk
Hörður segist þekkja dæmi þess að fólk sé beitt þrýstingi til að mæta til vinnu í bænum, en treysti sér þó ekki til þess í núverandi ástandi.
„Við höfum fengið hóp af fólki, verkalýðsfélögin í Grindavík, til okkar sem treystir sér ekki til að fara inn á þessu svæði,“ segir Hörður. Um tugi fólks sé að ræða. Þó vilji meirihluti fólks mæta til vinnu.
Hann segir nauðsynlegt að koma til móts við þetta fólk sem ekki treysti sér til að starfa í bænum, nú þegar búið er að opna hann.
„Við erum komin með einhvern hóp inn á sjúkrasjóði hjá verkalýðsfélögunum, sem er í það miklu áfalli að þau treysta sér ekki til að fara aftur.“