Erlent

Ný til­raun til vopnahlésviðræðna um helgina

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ástandinu í og við Rafaborg hefur verið lýst sem helvíti á jörðu.
Ástandinu í og við Rafaborg hefur verið lýst sem helvíti á jörðu. AP/Hatem Ali

Sendinefnd frá Ísrael mun taka þátt í vopnahlésviðræðum í París um helgina ásamt fulltrúum Bandaríkjanna, Katar og Egyptalands. Viðræðuefni verði ásamt vopnahlé frelsun ísraelskra gísla á Gasasvæðinu.

Síðasta tilraun til að binda tímabundinn enda á átökin á svæðinu rann í sandinn fyrir tveimur vikum síðan þegar Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hafnaði því sem hann kallaði veruleikafirrt tilboð Hamasliða um fjögurra og hálfs mánaðar vopnahlé og brottflutning ísraelskra hermanna af Gasa.

Reuters greinir frá því að Ismail Haniyeh leiðtogi Hamas hafi dvalið í Egyptalandi undanfarna daga og að það sé vísbending um að viðræður haldi áfram.

Viðræður árangurslausar hingað til

Hin ísraelska Stöð 12 greindi frá því að varnamálaráðuneytið hafi samþykkt að senda sendinefnd sem leiðtogi leyniþjónustunnar David Barnea fer fyrir til Parísar á morgun til viðræðna.

William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA mun vera viðstaddur fundinn ásamt Sjeik Mohammed bin Abdulrahman al Thani, forsætisráðherra Katars, og Abbas Kamel, forstjóra egypsku leyniþjónustunnar.

Sami Abu Zuhri, háttsettur erindreki Hamasliða, sagði í samtali við Reuters að Ísrael bæri ábyrgð á hægum gangi viðræðna. Fulltrúar Ísraela hafi dregið tilbaka áður samþykkta liði og hafi engan áhuga á að ná árangri í viðræðum.

Ísraelsk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig sérstaklega um málið en Benjamín Netanjahú segir að sýni Hamasliðar sveigjanleika sé hægt að ná árangri. Hamas segist ekki munu sleppa gíslunum án tryggingar um að ísraelski herinn dragi sig úr Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×