Innlent

Mygla fannst í stjórn­sýslu­húsinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Stjórnsýsluhúsið er á Ketilbraut á Húsavík.
Stjórnsýsluhúsið er á Ketilbraut á Húsavík. Vísir/Vilhelm

Mygla hefur greinst í stjórnsýsluhúsi Norðurþings á Húsavík. Niðurstaða greiningar verkfræðistofunnar Verkís hefur leitt í ljós að myglu er að finna á þremur stöðum en að kjallarinn sé verst farinn.

Í samtali við RÚV segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri í Norðurþingi að sem betur fer séu engar vistarverur eða skrifstofur í kjallaranum. Þó séu gallar í gluggum á norðurhluta hússins og því vatn lekið bakvið múrinn.

Katrín segir einn starfsmann stjórnsýslunnar hafa fundið til óþæginda og vinni nú að heiman. Annars hafi myglan lítil áhrif á starfsemina. Opnunartíma hafi verið breytt en lítillega þó og aðsókn á opnunartíma hafi einnig spilað inn í.

Í samtali við Ríkisútvarpið segir Katrín að húsnæðið sé að ýmsu leyti óhentugt og að húsnæðismál sveitarfélagsins þurfi frekari skoðun. Til skoðunar sé að færa stjórnsýsluna í minna húsnæði með meiri samvinnuskrifstofum.

„Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna að því að finna lausn á framtíðar húsnæðismálum stjórnsýslunnar á Húsavík með það að markmiði að hagræða í húsakosti sveitarfélagsins,“ kemur fram í fundargerð byggðarráðs Norðurþings frá fimmtánda febrúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×