Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alvotech rétt fyrir opnun markaða í Kauphöllinni í morgun. Þar segir að tilboðsgjafar, sem ekki eru tilgreindir, muni fá afhent áður útgefin hlutabréf sem eru í eigu Alvotech í gegnum dótturfélagið Alvotech Manco ehf. Viðskiptin verða í gegnum Kauphöllina, Nasdaq Iceland.
Endanlegt bindandi tilboð barst félaginu í morgun og hefur Alvotech ákveðið að ganga að því. Alvotech hyggst nýta féð í almennan rekstur, til að styrkja framleiðslugetu og við að koma væntanlegum líftæknilyfjahliðstæðum á markað.
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna veitti Alvotech leyfi til sölu og markaðssetningar í Bandaríkjunum á Simlandi sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira aðfaranótt laugardags. Á síðasta ári var Humira eitt mest selda lyf heims, og nam sala þess í Bandaríkjunum um 1.680 milljörðum króna, samkvæmt ársskýrslu framleiðanda lyfsins fyrir 2023.
Kauphöllin íslenska opnar klukkan 9:30 og verður fróðlegt að fylgjast með gengi bréfa í Alvotech í dag.
Uppfært klukkan 9:50
Verð á bréfum í Alvotech hækkaði um þrettán prósent fljótlega eftir opnun markaða. Þá höfðu verið gerð viðskipti með bréf í félaginu upp á 24,2 milljarða, þ.e. milljarðana 22,8 og svo 1,4 milljarð króna til viðbótar.