Erlent

Macron úti­lokar ekki að senda her­menn inn í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frakkar eru uggandi yfir stöðu mála í Úkraínu, þar sem Rússar virðast vera með yfirhöndina.
Frakkar eru uggandi yfir stöðu mála í Úkraínu, þar sem Rússar virðast vera með yfirhöndina. AP/Gonzalo Fuentes

Emmanuel Macron Frakklandsforseti vildi ekki útiloka í gær að hermenn Evrópuríkja yrðu sendir inn í Úkraínu. Ítrekaði hann hins vegar að ekkert samkomulag lægi fyrir þar að lútandi.

Ummælin lét forsetinn falla á fundi sem hann boðaði til um stöðu mála í Úkraínu, í tilraun til að viðhalda og efla stuðning við Úkraínumenn. Sagði hann ekkert liggja fyrir um að senda hermenn inn í Úkraínu en að það ætti ekki að útiloka þann möguleika.

„Við munum gera allt sem við getum til að tryggja að Rússar fari ekki með sigur af hólmi,“ sagði Macron.

Forsetinn benti á að það sem áður var talið ógerlegt, til að mynda að sjá Úkraínumönnum fyrir langdrægum vopnum og orrustuþotum, hefði verið gert. „Við þurfum að gera allt sem við getum til að ná markmiði okkar.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Evrópuleiðtogi ræðir það opinberlega að styðja Úkraínu með því að senda hermenn inn í landið. Macron sagði enda að afstaða Rússa hefði breyst.

„Þeir freista þess að ná auknu landsvæði á sitt vald og hafa augastað ekki bara á Úkraínu heldur einnig mörgum öðrum ríkjum, þannig að það er mikil ógn sem stafar af Rússum,“ sagði forsetinn.

Sagði hann sigur á Rússum nauðsynlegan til að tryggja frið og öryggi í Evrópu.

Meðal viðstaddra á fundinum voru Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, Andrzej Duda, forseti Póllands, og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. Þá voru einnig viðstaddir sendifulltrúar frá Bandaríkjunum og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×