Gular viðvaranir eru í gildi á Austfjörðum vegna hríðar til klukkan 13 og vegna vestan storms á Suðausturlandi til klukkan 18. Má gera ráð fyrir hviðum að 35 metrum á sekúndu þar sem hvassast verður við Öræfajökul.
Á Austfjörðum má búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum á fjallvegum, en á Suðausturlandi geta aðstæður verið hættulegar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hiti verði víða nálægt frostmarki.
„Dregur smám saman úr vindi og éljum undir kvöld, en kólnar í veðri.
Lægðin fjalægist landið seinnipartinn og dregur þá smám saman úr vindi og úrkomu. Á morgun er nálgast önnur lægð sunnan úr hafi og snýst þá í austlæga átt með dáliltum él sunnan- og austantil. Talsvert frost víða á landinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Austlæg átt, 8-13 m/s og él suðaustanlands og með suðurströndinni, en annars hægari og bjart með köflum. Frostlaust syðst, en frost annars 1 til 13 stig, kaldast í innsveitum norðantil.
Á fimmtudag: Norðan 8-15 m/s, hvassast austast og víða dálítil él, en yfirleitt bjart um sunnanvert landið. Frost víða 0 til 10 stig, en frostlaust syðst.
Á föstudag: Norðanstrekkingur eða allhvass með éljum, en bjartviðri sunnan heiða. Talsvert frost á öllu landinu.
Á laugardag: Hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en norðankaldi og él með austurströninni. Áfram kalt í veðri.
Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir austlægar eða breytilegar áttir með úrkomu víða á landinu og hlýnandi veður.