Fram kom í tilkynningu frá almannavörnum sem barst fjölmiðlum í gær að flauturnar myndu hljóma í eina mínútu. Myndu þær hljóma lengur væri um raunverulega vá að ræða.
Flauturnar voru meðal annars notaðar þegar gos hófst við Grindavík þann 8. febrúar síðastliðinn. Myndband af því þegar flauturnar fóru af stað við Bláa lónið vakti mikla athygli. Fram kemur í frétt Víkurfréttar sem birtir myndband af lúðrunum að þeir hafi heyrst langar leiðir.
Lúðurinn í Grindavík er staðsettur á íþróttahúsi bæjarins. Segja Víkurfréttir frá því að vilji sé fyrir hendi hjá almannavörnum til þess að setja upp annan viðvörunarlúður í bænum til að tryggja að til þeirra heyrist örugglega.