Íslenski boltinn

Lengju­bikars­marka­súpa í leikjum kvöldsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Már skoraði tvö í kvöld.
Birkir Már skoraði tvö í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Alls voru 15 mörk skoruð í tveimur leikjum kvöldsins i Lengjubikar karla í knattspyrnu. Nágrannafélögin Keflavík og Grindavík gerðu 3-3 jafntefli á meðan Valur vann 6-3 sigur ÍR.

Það var líf og fjör í Reykjaneshöllinni í kvöld þar sem Keflavík og Grindavík mættust. Ásgeir Páll Magnússon kom Keflavík yfir eftir stundarfjórðung en Adam Árni Róbertsson jafnaði metin fyrir gestina þegar tæpur hálftími var liðinn.

Ígnacio Heras Anglada kom Keflavík yfir á nýjan leik skömmu síðar en Sigurjón Rúnarsson jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar, staðan 2-2 í hálfleik. Stefan Alexander Ljubicic kom Keflavík yfir á nýjan leik með marki úr vítaspyrnu á 54. mínútu.

Það stefndi svo allt í sigur Keflavíkur þegar Eric Vales Ramos fékk sitt annað gula spjald þegar þrettán mínútur lifðu leiks. Það var hins vegar varamaðurinn Sölvi Snær Ásgeirsson sem tryggði Grindvíkingum stig með marki þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur 3-3.

Grindavík er áfram á toppi riðils 1 í A-deild Lengjubikarsins, nú með 10 stig að loknum fimm leikjum. Keflavík er í 2. sæti með 8 stig eftir fjóra leiki.

Í Breiðholti mættust ÍR og Valur. Heimamenn komust óvænt 2-0 yfir þökk sé mörkum frá Aroni Daníel Arnalds og Guðjóni Mána Magnússyni. Birkir Már Sævarsson og Aron Jóhannsson jöfnuðu fyrir Val áður en fyrri hálfleik var lokið.

Birkir Már bætti við öðru marki sínu sem og þeir Patrick Pedersen, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Adam Ægir Pálsson bættu við mörkum fyrir Val áður en Alexander Kostic minnkaði muninn fyrir heimamenn. Lokatölur á ÍR-vellinum 3-6.

Valur trónir á toppi riðils 2 í A-deild með 12 stig að loknum fimm leikjum. ÍR er í 2. sæti með 9 stig að loknum fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×