Innlent

Tíu milljónir rúm­metra af kviku

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hraun sem rann yfir Grindavíkurveg eftir eldgos í febrúar.
Hraun sem rann yfir Grindavíkurveg eftir eldgos í febrúar. Vísir/Vilhelm

Rólegt hefur verið yfir Reykjanesi í dag. Enn eru þó miklar líkur á að af eldgosi verði og er kerfið tilbúið í gos og heldur kvikumagn áfram að aukast.

Þetta segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvásérfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni. Hún segir ljóst að aðstæður geti breyst hratt og skyndilega á svæðinu líkt og áður hefur komið fram í fjölmiðlum. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur spáði því í febrúar að gos myndi hefjast 1. mars. Hann segir kerfið komið að þolmörkum.

„Skjálftavirkni hefur verið róleg. Við höfum mælt smáskjálfta í Sundhnúkaröðinni, eins og hefur verið síðustu daga og er engin breyting þar á. Þeir eru mjög litlir,“ segir Hildur. Veðurskilyrði hafa verið góð í dag og því ekkert sem truflar mælitæki.

Hún segir að gert sé ráð fyrir því að magn kviku sem safnast hafi saman í kvikuhólfinu á milli Stóra-Skógfells og Hagafells sé komið upp í á milli níu og tíu milljón rúmmetra. Bilið sem miðað við sé að eldgos hefjist hefur verið á milli átta og þrettán.

„Þannig að við erum að komast í miðjuna á þessum mörkum. Við munum fá nákvæmari tölur seinna í dag og það er verið að sækja gervitunglamyndir. En það er ekkert sem bendir til þess að eitthvað sé að fara að gerast akkúrat núna en það getur breyst á hverri mínútu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×