Innlent

Til­kynningar um kyn­ferðis­brot ekki færri síðan 2017

Atli Ísleifsson skrifar
Ný skýrsla embættis ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot fyrir árið 2023 hefur verið birt. Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri.
Ný skýrsla embættis ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot fyrir árið 2023 hefur verið birt. Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Vísir/Vilhelm

Tilkynnt var um 521 kynferðisbrot til lögreglunnar á síðasta ári og voru tilkynningar 15 prósent færri en að meðaltali samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan. Fara þarf aftur til 2017 til að sjá færri tilkynningar um kynferðisbrot til lögreglu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot. Þar kemur fram að á árinu 2018 hafi brotin verið 570 og fjölgaði þeim þannig um 18 prósent frá árinu á undan og voru yfir 600 mál árin 2019, 2021 og 2022 en fjöldi mála hjá lögreglu hafi almennt verið lægri fyrir þann tíma.

Í tilkynningu kemur fram að lögreglan skrái bæði hvenær kynferðisbrotið hafi átt sér stað og hvenær það hafi verið tilkynnt til lögreglu þar sem í hluta mála líði langur tími frá því að brot eigi sé stað og þar til það sé tilkynnt til lögreglu. 

„Í fyrra var þannig tilkynnt um 184 nauðganir til lögreglu og þar af 121 sem áttu sér stað á árinu. Tilkynntum nauðgunum fækkaði um 13% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan. 

Rúmlega 10 ára aldursmunur á brotaþolum og grunuðum

Kynferðisofbeldi er kynbundið ofbeldi. Þannig eru konur 84% brotaþola og 95% grunaðra eru karlar í kynferðisofbeldismálum sem tilkynnt eru til lögreglu. Töluverður aldursmunur er milli brotaþola og grunaðra. Um 45% brotaþola eru undir 18 ára í öllum kynferðisbrotum á meðan 13% grunaðra eru undir 18 ára.

Alls var tilkynnt um 102 kynferðisbrot gegn börnum, og samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára var fjöldi tilkynntra mála 20% færri. Tilkynningum um barnaníð voru 38, sem er 21% fjölgun slíkra tilkynninga samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan.

Árið 2023 var gerandinn óþekktur í 14% brotanna. Þegar greint var nánar í hvers konar kynferðisbrotum ekki var hægt að gera grein fyrir geranda mátti sjá að það var algengast í nauðgunum, eða í 20 nauðgunum sem tilkynntar voru lögreglu á árinu 2023.

Fjölgun tilkynninga og fækkun brota

Eitt af meginmarkmiðum lögreglunnar samkvæmt gildandi löggæsluáætlun 2019-2023 er að hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og tilkynna það til lögreglu aukist á tímabilinu um leið og kynferðisbrotum fækki. Í þolendakönnun lögreglunnar árið 2023 þar sem spurt er út í eigin reynslu árið 2022 kom fram að 1,9% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðisbroti og 10,3% þeirra tilkynntu brotið til lögreglu.

Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112.  Sjá einnig leiðarvísir um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu á ofbeldisgátt 112.is,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×