Fótbolti

Stelpurnar gætu lent í riðli með bæði heims- og Evrópu­meisturum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í íslenska kvennalandsliðinu fá að vita í dag hverjir verða mótherjar liðsins í undankeppni EM 2025.
Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í íslenska kvennalandsliðinu fá að vita í dag hverjir verða mótherjar liðsins í undankeppni EM 2025. Vísir/Hulda Margrét

Í hádeginu kemur í ljós hvernig riðill íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta lítur út þegar stelpurnar okkar reyna að tryggja sig inn á fimmta Evrópumótið í röð.

Íslenska landsliðið hefur verið með á EM 2009 í Finnlandi, EM 2013 í Svíþjóð, EM 2017 í Hollandi og EM 2022 í Englandi. Nú er bara spurningin hvort þær verði líka með á EM 2025 í Sviss?

Dregið verður riðla í A-deild undankeppninnar í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss og hefst drátturinn klukkan 12:00 að íslenskum tíma.

Íslenska liðið er í þriðja styrkleikaflokki í drættinum, en alla fjóra flokkana má sjá hér neðst.

Tvö efstu lið hvers riðils fara beint áfram á EM, en hin tvö fara áfram í umspil og neðsta lið riðilsins fellur einnig um deild fyrir næstu útgáfu Þjóðadeildarinnar. Fyrstu leikir undankeppninnar fara fram í apríl.

Ísland gæti lent í algjörum matraðarriðli því liðið á möguleika á því að enda í riðli með bæði heimsmeisturum Spánar og Evrópumeisturum Englands.

England vann EM sumarið 2022 og Spánn vann heimsmeistaratitilinn í fyrrasumar eftir úrslitaleik á móti Englandi.

Belgía, Svíþjóð og Noregur eru í sama styrkleikaflokki og Ísland og verða því ekki í riðli stelpnanna að þessu sinni.

  • Styrkleikaflokkur 1
  • Spánn
  • Frakkland
  • Þýskaland
  • Holland
  • Styrkleikaflokkur 2
  • England
  • Danmörk
  • Ítalía
  • Austurríki
  • Styrkleikaflokkur 3
  • Ísland
  • Belgía
  • Svíþjóð
  • Noregur
  • Styrkleikaflokkur 4
  • Írland
  • Finnland
  • Pólland
  • Tékkland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×