Gylfi er án liðs um þessar mundir en virðist stefna á endurkomu. Gylfi hefur mætt á æfingar með Fylki á Spáni en Bestudeildarliðið er sem stendur í æfingaferð á Campoamor rétt við Alicante.
Ísland mætir Ísrael í umspili um laust sæti á EM í knattspyrnu 21. mars. Leikurinn verður spilaður í Búdapest en um er að ræða heimaleik Ísraels en vegna stöðunnar á Gazasvæðinu verður leikurinn ekki spilaður í Tel Aviv.
Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, sagðist í viðtali við Vísi á dögunum ekki koma til með að velja Gylfa Þór Sigurðsson eða Aron Einar Gunnarsson í EM-umspilið nema að þeir verði farnir að spila fyrir félagslið.
Tíminn er því heldur betur að renna út fyrir þá báða.
Albert Brynjar Ingason og félagar í hlaðvarpinu Gula Spjaldið greindu fyrst frá því að Gylfi væri að æfa með Fylki í síðasta þætti en Vísir hefur fengið það staðfest að svo sé. Umræðan um það hefst þegar 9.30 mínútur eru liðnar af hlaðvarpinu hér að neðan.
Þar kom einnig fram að Óskar Borgþórsson, leikmaður Sogndal og fyrrum leikmaður Fylkis, væri einnig að æfa með Fylki á Spáni, en hann hefur verið að glíma við meiðsli.