Innlent

Virknin meiri við Fagra­dals­fjall en við kviku­ganginn

Atli Ísleifsson skrifar
Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn.
Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Vísir/Vilhelm

Skjálftavirkni yfir kvikuganginum í Svartsengi hefur verið með minnsta móti síðan kvikuhlaupinu lauk á laugardag. Heldur meiri virkni er við Fagradalsfjall en þar hafa mælst um tuttugu skjálftar síðasta sólarhringinn.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri færslu á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að líkanreikningar sýni að um 1,3 milljón rúmmetrar hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í kvikuganginn síðastliðinn laugardag. 

„Kvikugangurinn sem myndaðist í kjölfarið var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Rúmmál kviku sem fór inn í kvikuganginn í þessum atburði var því mun minni heldur en í fyrri atburðum þar sem að um 10 milljón rúmmetrar af kviku mynduðu kvikuganginn.

Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring. Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar.

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 4. mars er merkt með rauðu. Þar sést einnig hvaða áhrif kvikuhlaupið laugardaginn 2. mars hafði á söfnunarferlið. Þá fór um 1.5 milljónir rúmmetra af kviku yfir í Sundhnjúksgígaröðina án þess að eldgos var. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu.Veðurstofan

Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Tengdar fréttir

Rennsli af kviku svipað og í Elliðaánum

Kvika streymir inn undir Svartsengi á svipuðum krafti og Elliðaárnar. Prófessor í jarðeðlisfræði segir hugsanlegt að atburðurinn í þessari lotu á Reykjanesskaga sé hálfnaður. Mikilvægt sé að að skipuleggja umhverfi þannig að þol gegn náttúruvá sé sem mest, meðal annars með því að byggja ekki á svæðum sem útsett eru fyrir hraunrennsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×