Í frétt BBC segir að sex manna hópur hafi haldið af stað frá skíðasvæðinu í Zermatt í átt að bænum Arolla með fram landamærum Sviss og Ítalíu. Ekki hafi spurst til hópsins síðan hann var staðsettur nærri Tete Blanche fjallinu í nótt.
Samkvæmt upplýsingum frá lögregluyfirvöldum á svæðinu hefur allt tiltækt björgunarlið verið kallað til en vegna veðuraðstæðna sé lítið hægt að gera að svo stöddu.
Mikil snjókoma og vindar hafa verið á svæðinu síðastliðinn sólarhring. Skíðasvæðið Saas-Fee, sem staðsett er nærri Zermatt, er lokað vegna of mikillar snjókomu.
Talsmaður flugbjörgunarsveitar Zermatt segir í samtali við BBC að veðuraðstæður bjóði ekki upp á flug yfir svæðið að svo stöddu. Hann telur líklegra að veðrið hafi yfirbugað hópinn frekar en að hann hafi orðið fyrir snjóflóði. Ekki mikil snjóflóðahætta sé á svæðinu þar sem þau eru sögð hafa týnst.
Hann segir ekki hægt að greina tal í síðustu orðsendingunni sem kom frá hópnum, en hún veiti viðbragðsaðilum þó vísbendingar um staðsetningu þeirra.
Nöfn og þjóðerni fólksins í hópnum liggja ekki fyrir að svo stöddu.
Leiðin sem hópurinn hugðist skíða er hluti af Haute Route leiðinni, sem liggur frá Zermatt til Chamonix. Leiðin er einungis við hæfi þeirra reyndustu í íþróttinni og nokkra daga tekur að klára hana.
Talsmaður björgunarsveitanna segir ekki útilokað að hópurinn sé enn á lífi hafi þau náð að grafa sig ofan í holu. Vonast sé til þess að hægt verði að fljúga þyrlum yfir svæðið sem fyrst en til þess þurfi veðrið að ganga niður.