Erlent

Al­þjóða­hreyfingin krafin að­gerða vegna Rauða krossins í Rúss­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rauði krossinn í Rússlandi hefur verið sakaður um að ganga erinda stjórnvalda og taka afstöðu gegn Úkraínu.
Rauði krossinn í Rússlandi hefur verið sakaður um að ganga erinda stjórnvalda og taka afstöðu gegn Úkraínu. Getty/Yevhen Titov

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er nú sögð sæta þrýstingi af hálfu þjóða sem leggja samtökunum til fjármagn um að grípa til aðgerða vegna þjónkunnar Rauða krossins í Rússlandi við þarlend stjórnvöld.

Guardian greinir frá málinu og nefnir meðal annars aðkomu forseta Rauða krossins í Rússlandi í „föðurlandssamtökum“ hliðhollum Vladimir Pútín Rússlandsforseta, háttsetta starfsmenn sem hafa tjáð sig um ómöguleika þess að ná friði við „úkraínska nasista“ og þátttöku samtakanna í herþjálfun barna.

Þá virðast skjöl sem lekið var til fréttasíðunnar Delfi í Eistlandi og deilt með fleiri miðlum, meðal annars Guardian, benda til þess að yfirvöld í Rússlandi hafi í hyggju að úthýsa alþjóðlega Rauða krossinum á hernumdum svæðum í Úkraínu og fjármagna þess í stað eigin „Rauða kross“ á svæðunum.

Alþjóðahreyfingin hefur sætt nokkrum þrýstingi vegna starfsemi Rauða krossins í Rússlandi og hefur sagst hafa málið til skoðunar. Samtökin eru nú hins vegar sögð sæta auknum þrýstingi en það er á forræði þeirra að grípa til aðgerða og jafnvel segja upp aðild Rússlandsdeildarinnar.

Öll svæðis- og landssamtök Rauða krossins eru bundin af grunngildum hreyfingarinnar um sjálfstæði og hlutleysi en Rauði krossinn í Rússlandi virðist undantekning. 

Pavel Savchuk, 29 ára forseti landssamtakanna, var til að mynda starfsmaður Rússnesku þjóðfylkingarinnar (ONF), sem stofnuð var af Pútín og hefur það að markmiði að rækta tengsl milli stjórnarflokksins Sameinaðs Rússlands og ýmissa samtaka sem eru ekki á vegum hins opinbera.

Þá undirritaði hann í janúar síðastliðnum samkomulag milli Rauða krossins og Artek, barnabúða á Krímskaga, sem hafa sætt þvingunum af hálfu Vesturlanda en Bandaríkjamenn hafa sakað búðirnar um að eiga þátt í að taka úkraínsk börn frá fjölskyldum sínum og meina þeim að snúa aftur.

Eins og fyrr segir hafa háttsettir starfsmenn Rauða krossins í Rússlandi einnig tekið opinberlega afstöðu með rússneskum stjórnvöldum gegn Úkraínu og þá hafa náðst myndir af starfsmönnum samtakanna taka þátt í herþjálfun ungra barna, þar sem átta ára börnum var meðal annars kennt að meðhöndla skotvopn.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×