Körfubolti

Þór og Fjölnir með góða sigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Raquel Laneiro, leikmaður Fjölnis, var frábær í kvöld.
Raquel Laneiro, leikmaður Fjölnis, var frábær í kvöld. Vísir/Diego

Þór Akureyri og Fjölnir unnu í kvöld góða sigra í B-hluta Subway-deildar kvenna í körfubolta.

Þór Akureyri fékk Snæfell í heimsókn og vann sannfærandi tólf stiga sigur, lokatölur 84-72. Hin 15 ára gamla Emma Karólína Snæbjarnardóttir gerði sér lítið fyrir og var stigahæst í liði Þórs með 19 stig ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 3 stoðsendingar. Þar á eftir komu Madison Sutton og Lore Devos með 16 stig.

Sutton tók einnig 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Devos tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Eva Wium Elíasdóttir kom þar á eftir með 11 stig og 5 stoðsendingar.

Hjá gestunum var Grenetta Shaw með tvöfalda tvennu. Hún skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Mammusu Secka kom þar á eftir með 16 stig og 7 fráköst.

Á Hlíðarenda vann Fjölnir frábæran þriggja stiga sigur á Val, lokatölur 78-81. Ásta Júlía Grímsdóttir átti magnaðan leik í liði Vals en hún skoraði 23 stig og tók 17 fráköst. Þar á eftir kom Brooklyn Pannell með 13 stig, 4 stoðsendingar og 2 fráköst.

Hjá Fjölni skoraði Raquel Laneiro 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Korinne Campbell kom þar á eftir með 21 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

Stöðuna í deildinni má finna á vef Körfuknattleikssambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×