Erlent

Hand­teknir fyrir að fella tré sem leiddi til dauða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Sorø á Sjálandi.
Atvikið átti sér stað í Sorø á Sjálandi. Sydsjællands og Lolland-Falsters Politi

Þrír menn hafa verið handteknir í Sorø á Sjálandi í Danmörku fyrir að hafa fellt tré sem hafnaði á bíl 55 ára manns með þeim afleiðingum að hann lést.

Politiken greinir frá því að lögreglan á gruni mennina um að hafa fellt tréð viljandi og þess vegna hafi þeir verið handteknir. Ekki liggur fyrir hvort eitthvað samband sé á milli hins látna og hinna þriggja handteknu.

„Hann hefur eflaust verið á vitlausum stað á vitlausum tíma. Það hafði tragískar afleiðingar,“ hefur TV 2 eftir Kim Kliver yfirlögregluþjóni.

Mennirnir þrír sem eru í haldi lögreglu eru ungir að árum en engar nánari upplýsingar um þá liggja fyrir.

Einn til viðbótar var handtekinn í tengslum við málið samkvæmt færslu sem suðursjálenska lögreglan birti á síðu sína á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Aðild hans að málinu er þó óljós.

„Rannsóknin heldur áfram og við getum ekki tjáð okkur frekar um málið að svo stöddu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×