West Ham og AC Milan unnu bæði örugga sigra, Marseille var næstum því búið að missa frá sér fjögurra marka forskot úr fyrri leiknum og Varsjáin dæmdi sigurmark Benfica gilt í Glasgow.
West Ham vann 5-0 sigur á þýska liðinu Freiburg og þar með 5-1 samanlagt.
West Ham var búið að snúa við 1-0 tapi úr fyrri leiknum við Freiburg strax í fyrri hálfleik. West Ham komst í 2-0 eftir mörk frá Lucas Paqueta á 9. mínútu og Jarrod Bowen á 32. mínútu.
West Ham bætti síðan við þriðja markinu eftir aðeins sjö mínútna leik í síðari hálfleik þegar Bowen lagði upp mark fyrir Aaron Cresswell.
Mohammed Kudus skoraði síðan fjórða markið á 77. mínútu og úrslitin voru endanlega ráðin. Kudus bætti síðan við fimmta markinu og öðru marki sínu á 85. mínútu eftir aðra stoðsendingu Bowen í leiknum.
AC Milan vann 3-1 útisigur á Slavia Prag eftir að hafa verið komið í 3-0 í hálfleik. Tékkarnir misstu Tomas Holes af velli með rautt spjald á 20. mínútu ofan á það að hafa tapað fyrri leiknum 4-2.
Christian Pulisic skoraði fyrsta markið á 33. mínútu, Ruben Loftus-Cheek skoraði annað markið á 36. mínútu og þriðja markið skoraði Rafael Leao í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.
Slavia Prag minnkaði muninn á 85. mínútu en komst ekki nær.
Marseille tapaði 3-1 á móti Villarreal en lifði á úrslitunum úr fyrri leiknum. Marseille vann fyrri leikinn 4-0 og þurfti því ekki að hafa miklar áhyggjur á móti Villarreal. Spænska liðið vann leikinn með tveimur mörkum en þurfti miklu meira.
Benfica sló Rangers út eftir 1-0 sigur í Skotlandi en fyrri leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Rafa Silva kom Benfica í 1-0 á 66. mínútu en markið var fyrst dæmt af vegna rangstöðu. Varsjáin leiðrétti hins vegar þann dóm.