Innlent

Gýs á þremur stöðum og ó­vissa um styrk gasmengunar

Eiður Þór Árnason skrifar
Gossprungan eins og hún var um klukkan 11 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkasti hluti sprungunnar er austan við Sýlingarfell, en minni gosop norðar.
Gossprungan eins og hún var um klukkan 11 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkasti hluti sprungunnar er austan við Sýlingarfell, en minni gosop norðar. Veðurstofan

Verulega dró úr skjálftavirkni í nótt og mældist nánast engin skjálftavirkni eftir klukkan 3 til morguns. Þá dró einnig úr gósóróa og virkni á gossprungunni eftir því sem leið á nóttina. Gýs nú á þremur stöðum og er virkasti hluti sprungunnar austan við Sýlingarfell, en minni gosop norðar.

Þetta kemur fram í nýrri uppfærslu á vef Veðurstofunnar en þessi þróun svipar mjög til gosa seinustu mánaða á Sundhnjúkagígaröðinni. Miðað við veðurspá er útlit fyrir að gasmengun muni einkum berast til suðvesturs frá gosstöðvunum í dag og helst liggja til norðvesturs á morgun. Talsverð óvissa er um styrk gasmengunarinnar á þessu stigi, að sögn Veðurstofunnar.

Skömmu eftir miðnætti fór hraun yfir Grindavíkurveg og stefndi í átt að heitavatnslögninni frá Svartsengi. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að lítil hreyfing hafi verið á þeirri hrauntungu síðan í nótt og hún sé nú um 200 metra frá lögninni. Önnur hrauntunga rennur meðfram varnargörðum austan við Grindavík og í átt að Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru nú sagðir fylgjast með framrásarhraða hraunsins sem hafi færst hægt og rólega áfram.

Fylgjast má með nýjustu fregnum af gosinu í vaktinni hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×