Erlent

„Mann­kynið mun ekki lifa fram­hald af Oppen­heimer“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá fundi Öryggisráðsins í gær.
Frá fundi Öryggisráðsins í gær. AP/Eduardo Munoz Alvarez

Bandaríkin og Japan standa saman að ályktun sem hefur verið lögð fram í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um bann gegn kjarnorkuvopnum í geimnum.

Sendifulltrúi Bandaríkjanna, Linda Thomas-Greenfield, sagði á fundi ráðsins í gær að það væri „fordæmalaust, hættulegt og óásættanlegt“ að koma kjarnorkuvopnum á sporbraut um jörðu.

Ákvörðun Bandaríkjanna og Japana kemur á hæla fregna þess efnis að Rússar hefðu þróað tækni sem mætti nýta til að eyðileggja gervihnetti. Það var Hvíta húsið sem greindi frá þessu í febrúar síðastliðinum en þá kom fram að ekki stafaði ógn af vopninu enn sem komið væri.

Greint var frá því í erlendum miðlum að um væri að ræða einhvers konar kjarnorku- eða gjöreyðingarvopn en þetta fékkst ekki staðfest. Aðeins að vopnið væri ætlað til notkunar í geimnum og að það fæli í sér brot á Geimsáttmálanum frá 1967, sem kveður á um bann gegn gjöreyðingarvopnum í geimnum.

114 ríki eru aðilar að sáttmálanum, þeirra á meðal Bandaríkin og Rússland.

Utanríkisráðherra Yoko Kamikawa, sem stýrði Öryggisráðsfundinum þar sem rætt var um ályktun Bandaríkjanna og Japan, sagði að þrátt fyrir mikla spennu í samskiptum ríkja á tímum Kalda stríðsins, hefðu menn getað sameinast um það að friður ríkti í geimnum.

Bannið sem menn hefðu náð samkomulagi um þá ætti einnig að virða í dag.

Dmitry Polyansky, sendifulltrúi Rússlands í Bandaríkjunum, sagði ályktunina hins vegar enn eina áróðursbrelluna af hálfu Bandaríkjastjórnar. Rússar hafa neitað að vinna að „geimvopni“ og þá sagði Polyansky ályktunina ekki hafa verið unna af sérfræðingum né samráð verið haft um hana.

Antóníó Guterres, framkævmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, virðist hins vegar fylgjandi ályktuninni og hefur bent á að spenna og vantraust ríkja á milli hefði ekki verið meiri í marga áratugi.

„Mannkynið mun ekki lifa framhald af Oppenheimer,“ sagði Guterres, í vísun í Óskarsverðlaunamynd Christopher Nolan um þróun kjarnorkusprengjunnar.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×