Innlent

„Ljóst að hann réð ekki við verk­efnið“

Atli Ísleifsson skrifar
Eyþór H. Ólafsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði, segir hafa verið ljóst um nokkurt skeið hvert stefndi hjá meirihluta bæjarstjórnar. Tíðindi morgunsins hafi engu að síður komið honum á óvart.
Eyþór H. Ólafsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði, segir hafa verið ljóst um nokkurt skeið hvert stefndi hjá meirihluta bæjarstjórnar. Tíðindi morgunsins hafi engu að síður komið honum á óvart. XD/Hveragerði

Eyþór H. Ólafsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði, segir að ákvörðun meirihluta bæjarstjórar að semja við Geir Sveinsson bæjarstjóra um starfslok hafa komið sér nokkuð á óvart. Þó hafi verið ljóst um nokkurt skeið hvert stefndi. Fulltrúar meirihlutans munu ekki tjá sig um málið fyrr en að loknum bæjarstjórnarfundi á föstudag.

Tilkynning var send frá skrifstofu sveitarfélagsins í morgun þar sem sagt var frá því að tillaga að starfslokasamningi Geirs yrði lögð fyrir bæjarstjórnarfund á föstudaginn. „Starfsfólk á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar var upplýst í morgun um að tillagan verði lögð fram. Ekki verða veittar frekari upplýsingar fyrr en að bæjarstjórnarfundi loknum,“ sagði í tilkynningunni, en undir hana rita þau Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs, og Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar.

Eyþór segir fulltrúa minnihlutans ítrekað hafa bent á ýmis mál sem varða rekstur sveitarfélagsins og ekki hafa gengið sem skyldi. „Geir er góður drengur en við höfum séð mörg merki þess að bæjarstjórinn réð ekki við verkefnið. Og það sama á að sjálfsögðu við um fulltrúa meirihlutans. Það hafa ýmis mál komið upp sem hafa klikkað,“ segir Eyþór.

Hann segir ljóst að þessi tíðindi komi til með að vera sveitarfélaginu dýr enda kveði ráðningarsamningur á um sex mánaða biðlaun. „Og miðað við fyrri yfirlýsingar fulltrúa meirihlutans þá verður staðan auglýst á ný. Enda hafa þeir sagt að auglýsa eigi eftir bæjarstjóra á faglegum forsendum,“ segir Eyþór.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×