Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Að það sem mér þykir ljótt núna mun mér þykja flott seinna og það sem mér þykir flott núna mun mér þykja ljótt seinna.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Grænblár munstraður jakki sem var keyptur í lítilli hönnunarbúð í Barcelona árið 2013 og ég elska alveg jafn mikið í dag. Og Pokémon buxurnar mínar sem ég keypti ári síðar en hætti að ganga í því allir héldu að þær væru náttbuxur.


Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Ekki dagsdaglega, en þegar að ég kem fram þá pæli ég í hverju ég ætla að vera með fyrirvara.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Fer eftir skapi.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Í dag pæli ég meira í því hvort að flíkin sé klæðileg og hvort hún sé í mínum lit. Ég var vön því að kaupa bara eitthvað sem mér þótti flott burt séð frá því hvort það klæddi mig eða ekki.

Nýturðu þess að klæða þig upp?
Já, þegar það liggur vel á mér. Og ég reyni samt að klæða mig vel þó svo það geri það ekki.
Manni gengur betur og líður betur þegar maður er vel klæddur.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Frá Margréti Unni Guðmundsdóttur og Jonathan Davis.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ekki úlpa við hælaskó! Ekki of sterkir og kaldir litir því þeir fara mér ekki.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Goth pilsið sem ég keypti í Hertex fyrir ex.girls tónleika á Lunga. Það var martröð að spila í því, ég var alltaf að hrasa um það.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Að þekkja sína árstíð getur skipt sköpum, þ.e.a.s. hvaða árstíðarpalletta fer þér best.
Fólk getur litið út eins og lík í röngum lit á meðan það lifnar við í öðrum.
Kaupa notað, ekki nýtt. Nema að þú eigir skítnóg af peningum og getir keypt hágæða flíkur.

Hér má fylgjast með Tatjönu á samfélagsmiðlinum Instagram.