Hjördís Sigurbjartsdóttir, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar á Vínlandsleið, staðfesti í samtali við Vísi að slökkvilið væri að störfum og að lögregla væri á vettvangi til að tryggja lokanir.
Iðnaðarmenn hafi verið að vinna í þaki skólans og talið sé að eldurinn hafi kviknað út frá framkvæmdunum. Ekki var um stórbruna að ræða.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út.
Uppfært 15:40
Að sögn Ásgeirs Halldórssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu, kom eldurinn upp í þakskyggi skólans. Iðnaðarmenn hafi verið að bræða þakpappa og talið er að eldsupptökin tengist því.
Þegar fréttastofa náði tali af Ásgeiri voru aðgerðir enn í gangi. Slökkvilið var að rífa í burtu klæðningu af þakinu til að ná betur til eldsins, sem er staðbundinn og hefur ekki náð víðar um bygginguna.
Hann segir erfitt að leggja mat á tjónið að svo stöddu.
Uppfært 16:10
Ásgeir Halldórsson segir í samtali við fréttastofu að búið sé að slökkva eldinn. Nú er slökkviliðið að reykræsta húsið, en einhver reykur komst inn í skólann.


