Samkvæmt heimildum fréttastofu bökkuðu þjófarnir á Toyota Yaris-bíl, sem nú er eftirlýstur, á talsverðum hraða upp að bíl Öryggismiðstöðvarinnar og snarhemluðu. Síðan virðast þeir hafa brotist inn í bílinn í gegnum afturhurð með því að brjóta afturrúðu hans og tóku úr honum töskur sem fullar voru af peningum, og komu sér af vettvangi.
Starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar voru samkvæmt heimildum fréttastofu inni á Catalinu að sækja peninga úr spilakössunum. Þegar þeir komu út nokkrum mínútum eftir að þjófnaðurinn átti sér stað uppgötvuðu þeir að brotist hafði verið inn í bílinn og töskunum stolið.
Starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar voru samkvæmt heimildum fréttastofu við störf í Hamraborg að safna fjármunum frá fyrirtækjum sem reka spilakassa á svæðinu. Bæði eru spilakassar í Vídeómarkaðnum og á Catalinu. Vídeómarkaðurinn er umboðsaðili fyrir Happdrætti háskóla Íslands á svæðinu. Tæmingin er samkvæmt heimildum einu sinni til tvisvar í viku.
Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gæti upphæðin verið í kringum tuttugu til þrjátíu milljónir. Eigandi Vídeómarkaðarins tjáði fréttastofu í morgun að blaðamaður yrði að ræða við Öryggismiðstöðina eða Happdrætti Háskóla Íslands. Þá vísaði eigandi Catalinu á lögreglu. Engum fjármunum var stolið af Catalinu samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Blaðamaður Vísis ræddi við fjölmarga rekstaraðila í Hamraborginni á vettvangi í morgun. Enginn hafði orðið var við þjófnaðinn fyrr en lögregla mætti á svæðið.
Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná í fulltrúa Öryggismiðstöðvarinnar og sömuleiðis Happdrætti Háskóla Íslands.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is eða í tölvupósti á einstaka blaðamenn. Fullum trúnaði er heitið.